Eilífðartöffarinn og fyrrum ríkisstjóri Arnold Schwarzenegger staðfesti fyrir nokkru endurkomu sína í heim kvikmynda, en hefur átt erfitt með að finna réttu myndina. Svo virðist sem The Last Stand hafi orðið fyrir valinu hjá kappanum, en nýlega ákvað hann að taka að sér aðalhlutverkið í þeirri ræmu.
The Last Stand verður í leikstjórn Kim Jee-Woon og mun fjalla um Sheriff Owens, fógeta í smábæ nálægt landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó. Nokkrum árum áður hafði Owens verið hluti af lögregluliði Los Angeles en var rekinn eftir að mistök hans ollu miklum skaða. Síðan þá hefur hann vanist rólega lífinu í smábænum Somerset Junction, en kemst að því að einn alræmdasti eiturlyfjabarónn samtímans er á leið með her sinn í gegnum bæinn í átt að landamærunum. Þarf Owens þá að ákveða hvort hann muni standa gegn heilum her glæpamanna eða ekki, en ef maður þekkir Schwarzenegger rétt ætti maður að geta ímyndað sér hvorn valmöguleikann hann velur.