Fyrir stuttu síðan varð Saw frumsýnd hér á landi og vakti ekki síður athygli hér en hún gerði í öðrum löndum. Myndin var hræódýr í framleiðslu (talið er að kostnaður hennar hafi verið um $1,2 milljónir) en stórgræddi þegar hún opnaði á síðastliðinni Hrekkjavöku í Bandaríkjunum. Leikstjóri myndarinnar, hinn 27 ára gamli James Wan, og vinur hans Leigh Whannell (sem meðskrifar handritið) voru sérlega hrifnir af velgengni myndarinnar sem og framleiðendur Lions Gate Films, og nú er löngu búið að gefa grænt ljós á SAW 2, sem er sögð vera frumsýnd vestanhafs kringum sama tímabil og sú fyrsta á árinu 2005.
Ekkert er vitað um mikið fleira en frumsýningardaginn, ekki einu sinni er rætt um leikara, söguþráð, hvort Wan mun leikstýra aftur eða neitt slíkt. Þetta kemur hugsanlega allt í ljós nú á næstunni. Í millitíðinni er mælt með að íslenskir bíófíklar skelli sér á fyrri myndina meðan hún er sýnd í kvikmyndahúsum.

