Sannsögulegar myndir fá plaköt

Nýtt plakat er komið fyrir nýjustu mynd Matthew McConaughey, hina sannsögulegu Dallas Buyers Club, en við birtum fyrstu stikluna fyrir myndina fyrr í vikunni.

Myndin byggir á sannsögulegum atburðum og fjallar um rafvirkjann Ron Woodroof, venjulegan mann sem lenti í baráttu upp á líf og dauða við heilbrigðiskerfið og lyfjafyrirtækin. Árið 1985 var Ron greindur með alnæmi og sagt að hann ætti 30 daga eftir ólifaða. Á þeim tíma var lyfjagjöf gegn sjúkdómnum enn takmörkuð í Bandaríkjunum og almennt vissu menn ekki hvernig væri best að berjast gegn veirunni. Ron brást við þessu með því að kaupa ýmiss konar lyf alls staðar að úr heiminum, með bæði löglegum og ólöglegum leiðum. Til að koma í veg fyrir hömlur stjórnvalda gegn því að selja ósamþykkt lyf, þá stofnaði Ron svokallaðan kaupendaklúbb, ( Buyers Club ) fyrir aðra HIV smitaða, sem fengu þar með aðgang að þeim birgðum sem Ron sankaði að sér.

 

425_dallas_buyers_club_poster-130829

Auk McConaughey leika í myndinni m.a. þau Jared Leto og Jennifer Garner.

Smelltu hér til að sjá stiklu úr myndinni.

Einnig er nýtt plakat komið fyrir nýjustu mynd í leikstjórn George Clooney, The Monuments Men. Myndin er byggð á sannri sögu um stærstu fjársjóðsleit sögunnar. Myndin fjallar um óvenjulega herdeild í Seinni heimsstyrjöldinni, sem forseti Bandaríkjanna sendi inn í Þýskaland til að bjarga listaverkum og menningarverðmætum úr höndum Nasista og koma þeim til réttmætra eigenda. Verkefnið er snúið, sérstaklega þar sem það þarf að fara inn á svæði óvinarins þegar Þjóðverjar reyndu að eyðileggja sem mest áður en þriðja ríkið féll endanlega. Í liðinu voru sjö safnstjórar, sýningarstjórar, listfræðingar, sem allir eru vanari því að handleika listaverk en byssur og morðtól. Hópurinn kallaðist The Monuments Men, og þurfti að keppa við klukkuna til að koma í veg fyrir því að 1.000 ára saga yrði eyðilögð. Þeir settu líf sitt í hættu til að vernda mörg helstu sköpunarverk mannkynsins.

425_monuments_men_sonypictures

 

Með helstu hlutverk fara auk George Clooney sjálfs, þeir Matt Damon, John Goodman, Bill Murray og Jean Dujardin. Myndin er væntanleg í bíó í desember nk.

Smelltu hér til að skoða stiklu úr myndinni.