McConaughey er horaður Woodroof – fyrsta stikla!

Fyrsta stiklan er komin fyrir myndina Dallas Buyers Club en þar fer Matthew McConaughey með hlutverk eyðnismitaðs manns, en McConaughey horaði sig mikið niður fyrir hlutverkið. 

Smelltu hér til að horfa á McConaughey í hlutverki sínu. 

Myndin byggir á sannsögulegum atburðum og fjallar um rafvirkjann Ron Woodroof, venjulegan mann sem lenti í baráttu upp á líf og dauða við heilbrigðiskerfið og lyfjafyrirtækin. Árið 1985 var Ron greindur með alnæmi og sagt að hann ætti 30 daga eftir ólifaða. Á þeim tíma var lyfjagjöf gegn sjúkdómnum enn takmörkuð í Bandaríkjunum og almennt vissu menn ekki hvernig væri best að berjast gegn veirunni. Ron brást við þessu með því að kaupa ýmiss konar lyf alls staðar að úr heiminum, með bæði löglegum og ólöglegum leiðum. Til að koma í veg fyrir hömlur stjórnvalda gegn því að selja ósamþykkt lyf, þá stofnaði Ron svokallaðan kaupendaklúbb, ( Buyers Club ) fyrir aðra HIV smitaða, sem fengu þar með aðgang að þeim birgðum sem Ron sankaði að sér.

dallas

Leikstjóri myndarinnar er Jean-Marc Vallée. Myndin verður frumsýnd í almennum sýningum 1. nóvember nk. en fyrst verður hún sýnd á TIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada nú í september. Aðrir helstu leikarar í myndinni eru þau Jennifer Garner og Jared Leto.