Adam Sandler og Drew Barrymore áttu gifturíkt samstarf í kvikmyndinni The Wedding Singer. Þau munu nú líklega vinna saman aftur og þá í kvikmyndinni Fifty First Kisses. Fjallar hún um mann einn sem verður ástfanginn af stúlku eftir eftirminnilegan fund með henni. Hann kemst síðan að því að hún þjáist af ónýtu skammtímaminni og man ekki eftir að hafa nokkurntíma hitt hann. Hann þarf því að láta hana verða ástfangna af sér upp á nýtt á hverjum degi vilji hann vera áfram með henni. Upprunalegt handrit var skrifað af George Wing, og er nú verið að endurskrifa það af Lowell Ganz og Babaloo Mandel ( EdTV ). Columbia kvikmyndaverið er með myndina undir sinni könnu.

