Eins og þeir muna sem sáu gaman-hasarinn 22 Jump Street, þá endaði myndin á því að birta óteljandi hugmyndir að framhaldsmyndum, þar sem þeir félagar voru að vinna á laun í allskonar líklegum og ólíklegum skólum, hvort sem var læknaskóli, flugskóli eða Ninja skóli, og svo framvegis.
Vitað var að þeir félagar hefðu einmitt ekki haft mikinn áhuga á fleiri framhaldsmyndum, og þetta var því eins og skemmtilegur endapunktur á seríunni. En nú hefur málið tekið óvænta stefnu því búið er að staðfesta gerð blendingsmyndarinnar Men in Black / 21 Jump Street, eða MIB 23, eins og hún mun heita.
Eins og sjá má af fyrsta merki myndarinnar, þá er þarna notast við útlit beggja mynda. Myndin verður þriðja Jump Street myndin og fjórða Men in Black myndin.
Ekki er búist við að Men in Black leikararnir Will Smith og Tommy Lee Jones verði með í myndinni, en Jonah Hill og Channing Tatum verða hinsvegar aðalmennirnir sem Schmidt og Jenko.
Nú er bara að bíða spennt eftir fleiri fréttum af þessum undarlega samruna.