Sagan lét Keaton ekki í friði

Knox Goes Away, sem komin er í bíó á Íslandi, er önnur kvikmyndin sem Michael Keaton leikstýrir. Hin er The Merry Gentleman frá árinu 2008. Og eins og í þeirri kvikmynd þá er Knox Goes Away íhugul persónuskoðun með hamlandi en tjáningaríkum sjónrænum stíl, eins og segir á vefsíðunni IndieWire.

Þá segir að myndin sé metnaðarfyllri og margslungnari en fyrri kvikmyndin og áhorfendur fái í raun margar kvikmyndir í einni; Myndin er spennandi en einnig djúphugul, harmræn en samt fyndin og við fáum ýmsa skemmtilega vinkla og tóna og söguþráð með mörgum óvæntum snúningum.

Hraðvirkur hrörnunarsjúkdómur

Í Knox Goes Away leikur Keaton titilhlutverkið, leigumorðingja sem er með hraðvirkan hrörnunarsjúkdóm og á því kappi við klukkuna til að hnýta ýmsa lausa enda, bæði í vinnunni og einkalífinu.

Þessi saga lét Keaton ekki í friði. „Ég las handritið, fór í burtu, lék í kvikmynd, kom aftur, fór aftur í burtu, gerði aðra kvikmynd, og svo ákvað ég að taka handritið upp og lesa það aftur,“ sagði Keaton við IndieWire. „Þetta tók sinn tíma.“

Knox Goes Away (2024)

Ekki aðgengileg á veitum á Íslandi
Rotten tomatoes einkunn7
Rotten tomatoes einkunn 65%

Leigumorðingi sem greindur hefur verið með andlega hrörnun sem versnar mjög hratt, fær tækifæri til endurlausnar með því að bjarga lífi uppkomins sonar síns sem hann er í litlu sambandi við. En til að ná því þarf hann að etja kappi við lögregluna sem er á hælum hans auk ...

Loks þegar Keaton samþykkti á endanum að leikstýra, þá sá hann hve fínir og viðkvæmir tónar voru í handriti Gregory Poirer, sem þurfti að leggja mikla alúð við.

Passlega óupplýstir

Ein mesta áskorunin fyrir Keaton var að halda áhorfendum passlega óupplýstum, þannig að þeir væru ráðvilltir á réttum stöðum og vissu stundum minna og stundum meira en persónurnar til að sagan hefði sem mestan slagkraft. Keaton segir að klipparinn Jessica Hernandez eigi mestan heiðurinn af því að matreiða upplýsingarnar á réttan hátt ofaní áhorfendur. „Hún hugsaði um hluti sem mér datt ekki í hug og hefði aldrei getað ímyndað mér.“

„Þegar áhorfendur sjá t.d. hvað sonurinn [James Marsden] sér, þá þurfa þau að vera í hans sporum, en á sama tíma eru þeir að hugsa, „Bíddu, ég held að sonurinn skilji ekki hvað er í gangi núna.“ Þannig að þú þarf virkilega að halda áhorfendum í réttu jafnvægi.““

Bara 25 dagar

Eitt af því sem var flókið við myndina var að Keaton hafði aðeins 25 daga til að taka hana upp, sem var snúið því sagan er nokkuð flókin, þó að honum að lokum hafi fundist sem þessar takmarkanir hafi hjálpað kvikmyndinni. „Ég veit ekki hvort það að hafa svona ramma geri hlutina auðveldari, en á móti hefurðu ekkert val og verður að klára,“ útskýrir Keaton.