Sæluvíman stoppar ekki: Dúndur díselpönk á hestasterum

Mad Max: Fury Road er blikkandi, brunandi sýnidæmi um rússíbanareið á hvíta tjaldinu í orðsins fyllstu merkingu. Hún er allt það sem nútímahasarmyndir eru (því miður) oftast nær ekki og sannar það með helsjúkum, masterklassa vinnubrögðum aðstandenda. Krafturinn er slíkur að hægt er að horfa á útkomuna með kjaftinn enn ósjálfrátt galopinn, hvort sem horft er í annað eða tíunda skiptið

Það er næstum því skammarlegt, en samt svo tignarlegt, að sjá George Miller, endalaust óttalausan, jafn ruglaðan og hann er, fagmann á áttræðisaldri, sýna öðrum leikstjórum og áhorfendum hvernig á að gera stanslausa, beinskeytta hasarveislu sem hittir allar hörðu nóturnar. Mynd sem býður upp á einfalda en spennandi sögu og er ekki yfir súbtextum hafin í öllum ljúfa hávaðanum.

Miller er maðurinn sem hér um bil fann upp á þessari rokkuðu díselpönk-brenglun, ef við miðum t.d. aðeins við það hvað The Road Warrior hefur markað stór spor í kvikmyndasögunni og haft mikil áhrif á yngri kynslóðir. Það er einsdæmi hvernig þessum leikstjóra tókst að toppa yngri útgáfuna af sjálfum sér; bæði með svona óhefluðu sjálfsöryggi gagnvart efninu og fyrirmyndarstefnu um hvernig hægt er að útbúa framúrskarandi endurræsingu.

Undirritaður hefur alltaf haft veikan blett fyrir gömlu Mad Max-þrennunni og er kannski með betra þol fyrir Beyond Thunderdome en flestir. Fyrir utan hræódýru, költuðu frummyndina hefur Miller í rauninni þrisvar sinnum gert núna sömu myndina, í einu formi eða öðru, bara með gjörbreyttum tóni, sniði, fjármagni og skilaboðum.

Fyrsta myndin fjallaði um tengsl Max við eigin fjölskyldu. Nr. 2 fjallaði um einstaklinga og samfélög og sú þriðja um börn/kynslóðaskipti. Í Fury Road eru þemað upprisa gegn harðstjórn og táknmyndum feðraveldis.

Það er hægara sagt en gert að fullkomna útgeislun villimanns, en þar kemur Tom Hardy sterkur inn sem Max. Samanburður við Gibson gamla er kannski ekki sanngjarn en óumflýjanlegur hjá aðdáendum seríunnar. Hardy hefur ekki alveg þetta sama karisma og Mel bjó yfir en Hardy selur karakterinn betur. Hann er með trúverðugt skepnueðli, er fámáll og í toppformi. Þetta bætir að mörgu leyti upp fyrir það að lurkurinn virðist ekki alveg vera viss með hvaða hreim hann hefur tileinkað sér. Ef einhvern bersýnilegan galla er að finna í allri myndinni, er það þá hversu furðulega áberandi er búið að „döbba“ margar línurnar hans.

Enn betri en Hardy er leikkonan Charlize Theron sem baráttunaglinn Furiosa. Hún er trúlega eftirminnilegasta persóna seríunnar (fyrir utan gimpið á gítarnum, vissulega). Theron er flottur harðhaus sem nær vel saman með Max; þau tengjast og styrkjast í gegnum sameiginleg markmið að syndaaflausnum.

Á þeim nótum skilur Nicholas Hoult einnig slatta eftir sig sem krúttlegur stríðsgutti sem sér veröld sína hringsnúast þegar hann dregur tilgang sinn og trú í efa. Fáir karakterar ganga í gegnum jafn stóra breytingu og Hoult og höndlar leikarinn þann persónuboga vel. Nýsjálendingurinn Hugh Keays-Byrne, sem lék ófétið Toecutter í fyrstu myndinni, er kvikindislega flottur hérna sem gamall fasistaviðbjóður að nafni Immortan Joe. Yfirdrifinn, ljótur og æðislegur skúrkur, patríarki í sinni berustu mynd, eftirminnilega túlkaður af Keays-Byrne með aðstoð grípandi búningahönnunar. Má síðan að sjálfsögðu ekki gleyma stórum hópi stuðningsfólks þar sem allflestir fá að skína, að ógleymdum þessum graníthörðu mótorhjólaömmum sem dúkka upp í seinni helmingnum.

Sem hreinræktuð hasarmynd er þessi mynd algjör sæluvíma á hestasterum; ofbeldisópus sem notar hraða og adrenalín til að þjóna persónum og frásögn fram yfir eintómt sjónarspil eða púður. Með Fury Road sýnir Miller engin merki um tilgerð eða gervidýpt og einblínir snyrtilega á agressívt sögusvið þar sem persónur eru strípaðar niður í sín skepnulegustu grunneðli með markmiðin einföld: drepa, lifa af, rotna að innan í vonleysi eða hanga á hvaða von sem í boði er. 

U.þ.b. 80% af myndinni er bókstaflega á fullri ferð en samt er hún svo mikið meira en bara linnulaus, stílíseraður eltingaleikur með nokkrum stoppum. Eins og gefið er í skyn að ofan kemst myndin framhjá slíkum þunnildum með hnitmiðuðum tökum Millers á því að þróa plottið og persónusköpunina með hasarnum sjálfum. Sagan er þunn en sömuleiðis laus við alla fitu og afhjúpast allt skemmtilega í gegnum kaótíkina.

Leikstjórinn er allavega nógu skarpur til að gæta þess að fjölbreytnin, urrið í vélunum, dekkjaspólið í sandinum og sífelld sturlun áhættuleikara síist ekki í einhverjar klessur. Smærri atriðin eru að auki oft þau sterkustu. Enn fremur á þetta við um augnablik og þróun helstu persóna þar sem orð eru engin, en viðbrögð, gjörðir og jafnvel augnaráð súmma upp góðan styrkleika. Sést þarna langar leiðir (ekki síst á sérstakri, svarthvítri útgáfu sem gefin var út…) hversu mikill innblástur kemur frá þöglum kvikmyndum og hvernig leikstjórinn útfærir nútímalega týpu af slíkum stíl. Bræðingur tölvubrellna og praktískra sviðsmynda eða áhættuatriða er nánast óaðfinnanlegur í þokkabót.

Þegar upp er staðið er það þó tvímælalaust Miller, afi díselpönk-eltingarleikjanna, sem er aðalstjarna Fury Road og stýrir hann þessari skepnu eins og fátt sé eðlilegra á hans aldri. Auga hans og teymisstjórn tekur ekki feilspor í að stækka og gera þennan klikkaða kvikmyndaheim svo spennandi; dystópíuveröld sem hlaðin er alls konar grípandi tryllitækjum, búningum og vaknar til lífs með tónlist, myndatöku, litabeitingu og klippingu af nógu háu kalíberi til að innsigla gæsahúðina og allt oflofið.

Örsjaldan á hverjum áratug laumar Hollywood frá sér sér bítandi og byltingarkenndum afþreyingarmyndum sem koma eins og þruma úr heiðskíru lofti og fanga á fullkominn hátt tilsettan anda en með gáfum, innihaldi og framleiðslu í heimsklassa. Upp í hugann koma titlar eins og Star Wars (’77), Raiders of the Lost Ark, Jurassic Park, The Matrix og ýmsar fleiri myndir sem veita listafólki framtíðar ómældan innblástur. Vel er hægt að færa rök fyrir að fjórða Mad Max myndin komist í þann hóp mynda, með aðdraganda sem nær að vefja hasarfíklum um fingur sér, jafnt og áhugafólki um djarfar stúdíó-bíómyndir og kvikmyndagerð almennt.

Til að setja þetta í betra samhengi eiga allar Fast & Furious myndirnar samanlagðar ekki séns í adrenalínið, sturlunina og tímalausu endinguna sem finna má í einni Fury Road.