Sacha Baron Cohen ( Grimsby, Ali G, Borat ) hefur mikinn áhuga á að endurgera dönsku gamanmyndina Klovn, sem sló eftirminnilega í gegn hér á landi árið 2010. Eins og Empire bendir á þá er vandræðagangurinn og grófur húmorinn eitthvað sem er upp á pallborðið hjá Cohen, enda er hans húmor ekki ósvipaður.
Klovn fjallar um Frank, sem Frank Hvam leikur, og Casper, sem Casper Christensen leikur, tvo gaura sem vilja frekar slæpast og skemmta sér en taka ábyrgð á eigin lífi. En þegar kærasta Frank verður ófrísk, þá ákveður hann að gyrða sig í brók og sýna að hann geti orðið góður faðir. Til allrar óhamingju þá reynast tilraunir hans byrjunin á miklum og vandræðalegum uppákomum.
Cohen hefur lengi verið aðdáandi myndarinnar og framhaldsins, en þar fara þeir Frank og Casper til Los Angeles. Isla Fisher, eiginkona Cohen, lék í seinni myndinni.
Næsta skref hjá Cohen er að finna fjármagn og fá framleiðendur í lið með sér.
Cohen sást síðast í Alice Through The Looking Glass, en næstu verkefni eru enn í skoðun.