Það er óhætt að segja að kvikmyndin sem kemur í bíó í dag, The Batman, sé mynd sem margir hafa beðið verulega spenntir eftir. Töluverð eftirvænting hefur verið fyrir því að sjá hvaða tökum leikstjórinn Matt Reeves (War for the Planet of the Apes, Dawn of the Planet of the Apes, Cloverfield) tekur þessa vinsælu ofurhetju. Verður stemmningin gotnesk eins og hjá Tim Burton, pólitísk og nútímaleg eins og hjá Cristopher Nolan eða heimsendaleg eins og hjá Zack Snyder?
Eins og segir í umfjöllun BBC um myndina þá er myndin svo laus við liti að hún hefði næstum getað verið tekin í svarthvítu. Þá segir BBC að mögulega sé hér um að ræða sterkasta „Gothamborgar andrúmsloftið“ af öllum Batman myndunum. Miðillinn lætur reyndar fylgja með að myndin sé kannski ekki frumlegsta Batman myndin.
Stemmningin er sem sagt drungaleg og Robert Pattinson sem leikur Batman túlkar hann með sínum hætti og gerir það vel samkvæmt BBC.
Ekkert elsku mamma
IGN segir að Batman Pattinsons sé sá mest ógnvekjandi til þessa, og það sé alveg klárt strax í upphafi að það er ekkert elsku mamma í þessari nýju Batman mynd. IGN lýsir myndinni sem geðtrylli með vænum skammti af glæpa-rökkri, og leikstjóranum, Reeves, takist ætlunarverk sitt. Myndin sé vægðarlaus fegurð út og í gegn, sannkallað meistarastykki.
Lengsta Batman myndin
Myndin er litlar 175 mínútur að lengd, eða tæpir þrír tímar, sem þýðir að hún er lengsta Batman mynd frá upphafi og næstlengsta ofurhetjumynd sögunnar á eftir Avengers: Endgame.
Alfreð rogast með þunga byrði
BBC bætir við að myndin sé jafn grimmdarleg (e. grim) og myndir hinna leikstjóranna, Burton, Nolan og Snyder, og Reeves og tökuliði hans hafi tekist að búa til sinn eigin stíl og eigin drunga, og þeir nái að halda því í fulla þrjá klukkutíma, sem sé talsvert afrek.
Er bara Bruce Wayne þegar hann sefur
Með helstu hlutverk auk Robert Pattinson fara Zoë Kravitz (Kattarkonan), Paul Dano (Gátumaðurinn) og Colin Farrell (Mörgæsin).
Opinber söguþráður er eftirfarandi: Leðublökumaðurinn, Batman, kemst á snoðir um spillingu í Gotham borg sem tengist fjölskyldu hans. Á sama tíma glímir hann við raðmorðingja sem gengur undir nafninu Gátumaðurinn, eða The Riddler.