Deadline segir frá því að gamanleikarinn Chris Rock eigi nú í viðræðum um að verða kynnir á næstu Óskarsverðlaunahátíð, þeirri 88. í röðinni.
Samkvæmt heimildum vefjarins þá standa enn nokkur atriði útaf borðinu í samningaviðræðunum, sem staðið hafa yfir í um eina viku, en líklegt sé að komist verði að samkomulagi fyrir helgi.
Ef samningur næst er það talið verða stór skrautfjöður í hatt nýrra framleiðenda Óskarsverðlaunanna, þeirra Reginald Hudlin og David Hill.
Rock var kynnir á 77. hátíðinni árið 2005, en sú hátíð fékk næst mesta áhorf af 10 síðustu hátíðum – aðeins hátíðin þar sem Ellen Degeneres var kynnir gerði betur, en hún dró 43,7 milljónir áhorfenda að viðtækjunum.
Hudlin og Hill sögðu Deadline eftir að þeir tóku við framleiðslukeflinu af Neil Meron og Craig Zadan að þeir hefðu þá þegar aðila í huga til að verða kynnir á þessari fyrstu hátíð sem þeir stjórnuðu. „Við viljum að áhorfandinn upplifi bæði spennu og smá ógn. Ég held að það sé það sem góður kynnir þarf að búa yfir.“
88. Óskarsverðlaunahátíðin fer fram þann 28. febrúar nk.
Hér fyrir neðan má sjá opnunarræðu Rock frá því fyrir 10 árum síðan: