Jurassic World: Dominion – betur þekkt sem annaðhvort sjötta Júragarðsmyndin eða þriðja Jurassic World-myndin – er nýjasta stórmyndin í vinnslu sem neyðist til þess að grípa til ráðstafana vegna kórónaveirunnar. Kvikmyndaverið Universal hefur ákveðið að stöðva framleiðslu kvikmyndarinnar vegna útbreiðslu smita en frá þessu greinir fréttaveitan Variety.
Upphaflega var búist við frumsýningu myndarinnar í júní á næsta ári en líklegt þykir að það eigi eftir að tefjast heilmikið af þessum vendingum að dæma. Tökur á myndinni hófust í London þann 24. febrúar síðastliðinn og því enn töluvert langt í land hvað framleiðslu og samsetningu myndarinnar varðar.
Með helstu hlutverkin í Jurassic World: Dominion fara Chris Pratt, Bryce Dallas Howard, Justice Smith, Daniella Pineda og má einnig búast við kunnuglegum andlitum úr eldri myndum seríunnar, á borð við Sam Neill, Lauru Dern, BD Wong og Jeff Goldblum. Leikstjóri þriðju/sjöttu myndarinnar er Colin Trevorrow, sem sat einnig við stjórnvölinn á upprunalegu Jurassic World og átti hann einnig hlut í handritinu að framhaldi hennar, Fallen Kingdom.
Ekki er enn vitað að svo stöddu hvenær framleiðsla Dominion mun hefjast á ný. Lífið finnur leið.