Risa eldhús í raunveruleikaþætti

Í kvöld hefur raunveruleikaþátturinn MasterChef Ísland göngu sína á Stöð 2. Í þættinum reyna áhugakokkar að heilla dómaratríóið með réttum sínum. Þeim sem tekst það fá MasterChef-svuntu og komast áfram í næstu umferð.

„Næsta umferð er svo svokallað „Boot Camp“, eða herbúðir, þar sem þeir bestu úr áheyrnarprufunum spreyta sig á ýmsum matreiðsluþrautum. Úr þessum krefjandi búðum komast átta áfram í MasterChef-eldhúsið, stærsta eldhús sem búið hefur verið til í sjónvarpi á Íslandi,“ segir í tilkynningu frá Sagafilm sem framleiðir þættina.

Dómnefndina í MasterChef  skipa Friðrika Hjördís Geirsdóttir, sjónvarpskokkur, Eyþór Rúnarsson, yfirmatreiðslumaður á Nauthól, og Ólafur Örn Ólafsson, yfirþjónn á Hótel Marina.