Kvikmyndaleikarinn Jeremy Renner hefur nú bætt á sig einu verkefninu til, og hefur samþykkt að leika í myndinni Slingshot, kappakstursmynd sem hann mun bæði leika í og framleiða.
Myndin er sannsöguleg og segir sögu Bill Caswell, sem hætti í góðu starfi í fjárfestingabanka, keypti sér 500 dala BMW bifreið og græjaði hana upp til að geta keppt í alvöru rallýkappakstri. Hann keppti síðan á móti atvinnuliðum í heimsmeistaramótinu í rallýakstri í Mexíkó 1991. Miðað við að hann var áhugamaður að keppa við atvinnumenn, þá vakti frammistaða hans gríðarlega athygli þar sem hann náði þriðja sæti í keppninni.
Don Handfield, félagi Renners í nýju framleiðslufyrirtæki, skrifaði handritið, en enginn leikstjóri er enn kominn að verkefninu, að því er segir í Empire kvikmyndatímaritinu. Þetta er annað verkefnið sem þeir félagar kynna til sögunnar, en það fyrsta var ævisaga leikarans Steve McQueen, þar sem Renner leikur McQueen, og James Gray skrifar handrit.
Renner er funheitur þessa dagana. Hann sló í gegn sem sprengjusérfræðingur í The Hurt Locker, lék síðan í The Town með Ben Affleck og leikur í Mission: Impossible – Ghost Protocol sem kemur út síðar á þessu ári. Einnig er tökum nýlokið á Hansel & Gretel: Witch Hunters, og við tekur leikur í The Avengers og The Bourne Legacy, meðal annars.