Eins og einhverjir muna sjálfsagt eftir, þá var gerð fyrir um 10 árum síðan afspyrnuléleg mynd um hetjuna Punisher, og skartaði hún aríska tröllinu Dolph Lundgren í aðalhlutverki. Nú á að endurvekja hetjuna, og er það handritshöfundurinn Jonathan Hensleigh ( Con Air , Armageddon ) sem skrifar handritið og mun einnig leikstýra í fyrsta sinn. Myndin fjallar um hermanninn Frank Castle sem verður vitni að því þegar mafían myrðir bæði konu hans og börn. Hann missir algjörlega vitið í kjölfarið og notar kunnáttu sína, færni og þjálfun til þess að heyja stríð við alla glæpamenn sem hann refsar miskunnarlaust. Myndin verður gerð fyrir um það bil 30 milljónir dollara, og þrátt fyrir að orðrómur segi að búið sé að ákveða hver fari með hlutverk Refsarans, hafa aðstandendur myndarinnar ekki látið það uppi enn.

