Gaman-spennumyndin RED sem kom út árið 2010 og fjallaði um leyniþjónustufólk sem var sest í helgan stein, en þurfti að taka fram riffilinn og hnúajárnin í eitt skiptið til viðbótar, sló óvænt í gegn árið 2010. Þetta þýddi að gerð var framhaldsmynd sem væntanleg er í bíó síðar á þessu ári.
Menn virðast hafa slíka trú á seríunni að nú eru handritshöfundar RED 2, þeir Jon og Erich Hoeber, sestir niður til að skrifa RED 3, og það áður en en RED 2 er frumsýnd!
Það var vefsíðan The Hollywood Reporter sem greindi fyrst frá þessu.
Með helstu hlutverk í RED 1 fóru þau Bruce Willis, sem lék Frank Moses, dæmigerðan Bruce Willis karakter, John Malkovich, sem lék Marvin Boggs, ofsóknaróðan snilling, Dame Helen Mirren sem lék Victoriu, skarpa og harðskeytta leyniþjónustukonu, og Morgan Freeman, sem lék dauðvona töffara.
Myndirnar eru byggðar á teiknimyndaseríu eftir Warren Ellis og Cully.
RED 1 þénaði 90 milljónir Bandaríkjadala í bíó í Bandaríkjunum og 200 milljónir dala til viðbótar utan Bandaríkjanna.
Í Red 2 safnar fyrrum leyniþjónustumaðurinn Frank Moses liði sínu aftur saman til að elta uppi týnt tæki sem tengist kjarnorkusprengju. Til að ná árangri þá þurfa þau að eiga við miskunnarlausa leigumorðingja og hryðjuverkamenn og valdasjúka embættismenn, sem allir vilja komast yfir vopnið ógurlega. Til að vinna verkefnið þarf hópurinn að fara til Parísar, Lundúna og Moskvu. Þau eru langtum verr búin til átaka en mótherjarnir, og eiga við ofurefli að etja, en með útsjónarsemi og gömlum töktum, ásamt því að hafa hvert annað, þá láta þau til skarar skríða, enda er heimurinn í hættu og þau þurfa að halda lífi.
RED 2 verður frumsýnd 19. júlí nk. í Bandaríkjunum en 2. ágúst hér á landi.