Fyrir þá sem hafa gaman af raunsæislegum ofbeldismyndum þá ættu viðkomandi að sperra upp augu og eyru, því nú um helgina verður myndin Kill List frumsýnd í Bretlandi. Leikstjórinn, Ben Wheatley, segir að hans markmið með myndinni hafi verið að sýna ofbeldið eins raunsætt og mögulegt væri, þó svo að hann viti að áhorfendur gætu átt erfitt með að horfa, amk. til að byrja með.
Wheatley og aðalleikararnir Neil Maskell og MyAnna Buring, ræða í vídeóinu hér fyrir neðan myndina og ábyrgðina sem fylgir því að sýna ofbeldi á hvíta tjaldinu.
Kill list fjallar um leigumorðingja sem snýr aftur til starfa átta mánuðum eftir misheppnað verkefni í Kiev í Úkraínu, sem skilur eftir sig bæði líkamleg og sálræn ör.
Leigumorðinginn, Jay, er fyrrum hermaður sem sneri sér að leigumorðum. Félagi hans Gal, pressar á hann að taka að sér nýtt verkefni. Á meðan verkefnið fer að taka á sig mynd og þeir sökkva dýpra í það, þá fer myrkrið að umlykja þá, með ótta og ofsóknaræði.