Kvikmyndablaðið Empire segir frá því að búið sé að skrifa handrit að fimmtu Rambo myndinni,; Rambo: Last Stand. Sylvester Stallone, Rambo sjálfur, sagði Empire frá því fyrir 18 mánuðum síðan, í aðdraganda frumsýningar á The Expendables, að ævintýri John Rambo væru yfirstaðin. „Þetta er komið; ég er 99% viss um að það verða ekki fleiri Rambo myndir,“ sagði hann við Empire á síðasta ári. „Ég er mjög sáttur við síðustu mynd, og ný mynd gæti verið mistúlkuð sem ónauðsynleg og eingöngu gerð til að græða pening á. Ég vil ekki að það gerist.“
Þrátt fyrir þessi orð Stallone þá hefur Sean Hood, sem skrifaði handritið að Conan the Barbarian, sem er að detta í bíó nú um helgina, skilað inn handriti að Rambo: Last Stand. FEARnet vefmiðillinn spurði Hood í framhjáhlaupi um þetta handrit, og kom í ljós að Stallone hafði hönd í bagga með að koma Rambo 5 í gang. „Ég hitti Stallone tvisvar á síðasta ári. Hann lét mig fá bók, eldra handrit, og tuttugu blaðsíður sem hann hafði skrifað sjálfur til að nota sem innblástur í lokahluta sögunnar um Rambo.“
Hood segir að sagan í Rambo 5 muni ekki vera á neinum þeim nótum sem menn hafa verið að ræða áður, þ.e. Rambo er ekki að fara til Suður -Ameríku að bjarga ungri stúlku úr klóm eiturlyfjaklíku, og þetta er ekki heldur eitthvað vísindaskáldsögulegt plott, né heldur forsaga. „Þetta er meira svona eins og í fyrstu myndinni, First Blood.“
Þó að þetta handrit sé nú að koma fram í dagsljósið er alls ekki víst að þetta verði tekið alla leið. Stallone er á fullu að gera myndirnar Bullet to the Head og Expendables 2. “ Millennium films réðu mig þó til að klára þetta handrit, og von mín er sú að hann [Stallone] muni að lokum láta verða af því að gera eina Rambo mynd í viðbót, með svona Clint Eastwood Unforgiven undirtóni,“ segir Sean Hood.
Eruð þið komin með nóg af Rambo – eða á Stallone að koma með eina lokamynd?