Ryan Gosling og leikstjórinn Derek Cianfrance unnu síðast saman í myndinni Blue Valentine, en þá var persóna Gosling allt of þung, að fá skalla, föst í ástlausu sambandi að ala upp krakka sem hann átti ekki.
Nú er von á nýrri mynd frá þeim félögum sem heitir The Place Beyond The Pines, og er hún talsvert ólík hinni fyrri. Það er nóg að virða fyrir sér útlitið á Gosling til að sjá það – aflitað hár, mótorhjól og tár flúrað á kinn hans.
Sjáðu plakatið fyrir myndina hér að neðan:
Myndin segir sögu af feðgum, syndum fortíðar, mótorhjólum og byssum. Ryan Gosling leikur Luke, áhættuökumann, sem snýr sér að bankaránum til að geta séð sómasamlega fyrir nýfæddum syni sínum. Til allrar óhamingju þá verða glæpir hans til þess að hann lendir upp á kant við Avery Cross sem Bradley Cooper leikur, sem er metnaðarfullur stjórnmálamaður og fyrrum lögreglumaður.
Sjáðu stikluna fyrir myndina hér fyrir neðan:
Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto á síðasta ári, og verður frumsýnd í almennum sýningum í bíó í Bandaríkjunum 29. mars nk.
Aðrir leikarar í myndinni eru m.a. Eva Mendes, Rose Byrne, Dane DeHaan, Ray Liotta, Ben Mendelsohn og Bruce Greenwood.
Hvernig líst þér á?