Vélmenninu R2D2 úr Star Wars sést bregða fyrir í síðustu Star Trek mynd.
Samkvæmt vefsíðunni io9.com sést vélmennið sogast út í geiminn þegar ein klukkustund og sautján mínutur eru liðnar af af Star Trek Into Darkness. Þetta segir í frétt The Guardian.
Þetta ætti ekki hvorki að koma aðdáendum Star Wars né Star Trek á óvart því C-3PO, vini R2D2, brá stuttlega fyrir í hinni Star Trek-mynd JJ Abrams, frá árinu 2009. Abrams er annálaður aðdáandi Star Wars og ákvað að heiðra seríuna með því að lauma vélmennunum frægu inn í Star Trek-myndirnar sínar. Abrams leikstýrir einmitt Star Wars: Episode VII sem er væntanleg 2015.
Aðdáendur Star Trek eru ekki hrifnir af Star Trek Into Darkness. Hún var kjörin versta Star Trek-mynd allra tíma á árlegri Star Trek-ráðstefnu sem var haldin í Las Vegas í síðasta mánuði.
Star Trek-bloggarinn Bill Gibron sendi Abrams opið bréf í maí sem margir grjótharðir Trekkarar hafa lýst yfir ánægju sinni með. „Star Trek er ekki Star Wars. Trek og Wars koma úr gjörólíkum áttum. Önnur myndaröðin er alvarlegur og vitsmunalegur vísindaskáldskapur á meðan hin er gríðarmikið skemmtiefni þar sem vestrum, asískum slagsmálamyndum og „serial“-myndum fjórða áratugarins er blandað saman,“ skrifaði hann.