Markaðsöflin hjá 20th Century Fox fóru óvenjulega og skemmtilega leið í dag til að kynna vísindaskáldskapinn og Alien-forsöguna Prometheus. Fyrirlestrasíðan vinsæla, Ted.com, var fengin til liðs við kvikmyndagerðarmennina, og birtur var þriggja mínútna fyrirlestur eftir eina persónu myndarinnar, leikna af Guy Pearce. Myndbandið gerist árið 2023 og Pearce er í hlutverki Peter Weyland, og flytur hann fyrirlesturinn sinn við heldur stærri vettvang en nú tíðkast yfirileitt hjá TED.
Gaman að sjá Pearce rekja goðsögnina um Prometheus og tengja svo við tilkynningu sína um að ætla að búa til vélmenni sem verða óþekkjanleg frá mannfólki. Þó má benda á það að Pearce verður líklega mjög lítið hlutverk í myndinni sjálfri, því megin söguþráður hennar gerist um 50 árum eftir að þetta myndband á að eiga sér stað. Myndbandið ætti annars að taka allan vafa af um hvort um raunverulega forsögu Alien sé að ræða, fyrirtæki Peter Weylands verður seinna hluti samsteypunnar Weyland-Yutani sem kom svo mjög við sögu í þeim myndum.
Hugmyndin að myndbandinu kom frá sjálfum Ridley Scott og Damon Lindelof handritshöfundi (flott viðtal við hann um þetta hér), en leikstjórn þess var í höndum Luke Scott (sonar Ridley). Það er aðeins hugsað sem markaðssetning fyrir myndina, og mun að öllum líkindum ekki birtast í henni sjálfri. Þá er þetta líklega aðeins byrjunin á „viral“ markaðssetningu myndarinnar, en samhliða myndbandinu var opnuð heimasíða Weyland Industries þar sem eflaust mun birtast eitthvað fleira á næst vikum.
Ein pæling samt: stangast það ekki á við Alien vs. Predator að Peter Wayland sé stofnandi Weyland Industries árið 2023? Er kannski öllum sama um AVP?