Ridley Scott vonast til þess að gera tvær til þrjár framhaldsmyndir af Prometheus.
Tökur á Prometheus 2 hefjast í febrúar en Scott ætlar ekki að láta hana duga.
„Þetta verður ekki síðasta myndin. Það verður ein í viðbót eftir þessa og hugsanlega verður fjórða myndin gerð áður en við náum í skottið á Alien-myndunum,“ sagði leikstjórinn við þýsku vefsíðuna Film Futter.
„Markmiðið er að útskýra Alien-myndirnar og hvernig stóð á því að geimveran varð til. Ég taldi geimveruna alltaf vera hluta af bakteríuhernaði,“ sagði hann.
Prometheus, sem kom út 2012, var að hluta til tekin upp á Íslandi. Hún átti að gerast á undan Alien-myndunum en Scott leikstýrði einmitt þeirri fyrstu sem kom út árið 1979.