Pitt vill Fincher í World War Z 2

Uppvakningatryllirinn World War Z frá árinu 2013, með Brad Pitt í aðalhlutverki, var hin ágætasta skemmtun, og þénaði meira en hálfan milljarð Bandaríkjadala í miðasölunni um heim allan, þrátt fyrir ýmis vandræði á tökutíma myndarinnar.

2015WorldWarZ_Press_200115

Velgengni myndarinnar í miðasölunni þýddi að framhaldsmynd var óumflýjanleg, en þó að nú séu þrjú ár liðin frá frumsýningu bólar ekkert á þessu téða framhaldi.

Upprunalega átti J.A. Bayona að leikstýra myndinni, en hann er genginn úr skaftinu og farinn að huga að Jurassic World 2. Nú eru því góð ráð dýr og segja heimildir Variety kvikmyndavefjarins að Pitt horfi nú til David Fincher, sem leikstýrði Pitt í myndunum Se7ven, Fight Club og The Curious Case of Benjamin Button, um að leikstýra framhaldsmyndinni.

Ýmsar heimildir herma að Pitt  og framleiðslufyrirtækin Paramount og Skydance hafi öll átt fundi með Fincher til að fá hann um borð.

Fincher ku hafa nægan tíma fyrir verkefnið þessi misserin, enda hefur hann aðallega verið að leikstýra í sjónvarpi að undanförnu, þáttum eins og House of Cards, Living on Video,og Utopia.

Síðasta bíómynd sem Fincher stýrði var Gone Girl. 

Nú er bara að bíða og sjá hvort að staðfestar fréttir berist innan tíðar.