Variety kvikmyndaritið segir frá því nú í kvöld að Joaquin Phoenix, sem lék nú síðast í Her, sé huganlega á leið í ofurhetjumyndina Batman vs. Supeman sem illmenni.
Heimildir blaðsins segja að Warner Bros framleiðslufyrirtækið vilji fá þennan Óskarstilnefnda leikara í myndina. Þetta er enn á umræðustigi samkvæmt blaðinu, en þó að Phoenix byðist hlutverkið er alls óvíst hvort hann hefði áhuga á því, enda hefur leikarinn forðast svokallaðar stórmyndir síðustu árin.
Sem stendur er Phoenix að skoða tilboð um að leika í mynd Gus Van Sant “Sea of Trees”.
Heimildir blaðsins telja að hlutverkið sem um ræðir sé hlutverk aðal illmennis myndarinnar, sem er þá líklega Lex Luthor, en fyrr í haust var sterkur orðrómur á sveimi um að Bryan Cranston úr Breaking Bad væri að fara að leika það hlutverk.
Aðrir leikarar sem hafa verið nefndir sem líklegir til að leika í myndinni eru m.a. Jason Momoa og Callan Mulvey.
Myndin verður frumsýnd 17. júlí, 2015.
Aðalhlutverkin, Superman og Batman, leika Henry Cavill og Ben Affleck. Amy Adams leikur Louis Lane kærustu Superman. Zack Snyder leikstýrir.