Bandaríski leikarinn Sean Penn, er ekki sáttur við lokaútgáfu leikstjórans Terrence Malick á myndinni Tree of Life. Penn leikur aðalhlutverk í myndinni sem verður frumsýnd hér á landi um næstu helgi.
„Tilfinningin sem mér fannst skína í gegn í handritinu fannst mér ekki skila sér í myndinni, en það [handritið] er það stórkostlegasta sem ég hef lesið,“ segir Penn við franska dagblaðið Le Figaro og er birt í The New Yorker. „Skýrari og hefðbundari frásögn hefði hjálpað þessari mynd, að mínu mati, án þess að hún missti eitthvað af fegurð sinni og áhrifum.“
„Í raun og veru þá er ég enn að reyna að átta mig á hvað ég var að gera í þessari mynd og hverju ég átti að bæta við inn í samhengið!“ bætti hann við. „Þar að auki tókst Terry aldrei að útskýra það almennilega fyrir mér.“
Penn mælir þó með myndinni: „Þetta er mynd sem ég mæli með að menn sjái, en þó aðeins ef þeir eru ekki með fyrirfram mótaða skoðun. Það er fyrir hvern og einn að finna í myndinni tilfinningalega og andlega tengingu. Þeir sem ná því fara út af myndinni snortnir.“
Meðleikari Penn í myndinni, Brad Pitt, sem lék föður Penn í myndinni, sagði á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr á árinu, þar sem myndin vann aðalverðlaun hátíðarinnar, að Malick hafi haft mikil áhrif á feril sinn.
„Þetta hefur breytt öllu sem ég hef gert síðan,“ sagði hann og átti við hvernig Malick vann myndina. „Hann er eins og maður sem stendur með fiðrildanet, og býður eftir að rétta andartakinu.“
Fimm klipparar unnu við að klippa myndina en eftirvinnsla myndarinnar tók þrjú ár áður en hún var loks frumsýnd í Bandaríkjunum í maí sl.