Paparazzi á barmi geðveiki

Leikarinn Guðmundur Ingi Þorvaldsson mun fara með aðalhlutverk í sjálfstæðri breskri kvikmynd sem ber titilinn Chasing Robert Barker, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Leikstjóri myndarinnar er Daniel Floréncio en eins og segir í Morgunblaðinu þá á hann að baki stutt- og heimildarmyndir og hlaut m.a. verðlaun fyrir stuttmynd sína Awfully Deep á alþjóðlegu kvikmynda – og myndbandahátíðinni Athens fyrir tveimur árum.

Guðmundur heldur til Lundúna í næstu viku og hefjast tökur á myndinni á föstudaginn. Hann segist í samtali við Morgunblaðið  hafa fallið fyrir handriti myndarinnar sem segi af paparazzi-ljósmyndara á barmi geðveiki. Hann segir að hlutverkið hafi hann fengið í gegnum konu sem hann var að vinna með í bresku leikhúsi árið 2010.

Guðmundur segir kvikmyndina heldur ódýra í framleiðslu, hún kosti á við íslenska kvikmynd og hefur fé verið safnað til framleiðslunnar á vefnum kickstarter.com.

Guðmundur segist aðspurður halda að myndin verði sýnd í kvikmyndahúsum þegar hún verði tilbúin, og muni fara á kvikmyndahátíðir.