Hinn heimsfrægi og viðkunnalegi bangsi Paddington er aðsóknarmesta kvikmyndin á landinu aðra helgina í röð. Alls hafa rúmlega rúmlega 12.000 manns farið á myndina, þar af tæplega 6.000 manns um síðastliðna helgi.
Paddington er ungur björn frá Perú sem hefur dálæti á Bretlandi. Hann ákveður að fara til Lundúna til að leita sér að nýju heimili, en hann áttar sig fljótlega á því að stórborgarlífið er ekki eins og hann ímyndaði sér. Hann kynnist góðhjartaðri fjölskyldu á Paddington-lestarstöðinni sem býður honum tímabundið athvarf. Svo virðist sem að gæfan hafi snúist honum í hag, allt þangað til að þessi sjaldgæfi björn fangar athygli uppstoppara sem vinnur á safni.
Nýjasta kvikmynd Clint Eastwood, American Sniper situr einnig á sama stað, í öðru sæti listans. Myndin fjallar um sanna sögu bandaríska hermannsins og leyniskyttunnar Chris Kyle sem staðfest er að hafi komið að minnsta kosti 160 óvinum í Írak fyrir kattarnef og þurfti oft að taka erfiðar ákvarðanir. Myndin hefur hlotið mikið lof og jafnframt mikla gagnrýni fyrir að ala á hatri við aðra trúarflokka.
Í þriðja sæti er The Imitation Game. Myndin er sönn saga stærðfræðingsins Alans Turing sem smíðaði fyrstu tölvuna og réð með henni dulmál Þjóðverja í síðari heimsstyrjöldinni. Winston Churchill sagði um Alan Turing að enginn annar einstaklingur hefði átt jafnstóran þátt í að bandamönnum tókst að vinna síðari heimsstyrjöldina á jafnskömmum tíma og raunin varð. Með aðalhlutverk í myndinni fara Benedict Cumberbatch og Keira Knightley ásamt Matthew Goode, Charles Dance og Mark Strong. Morten Tyldum leikstýrir.