Þar sem ný mynd Grand Budapest Hotel leikstjórans Wes Anderson er væntanleg, er einnig von á óvenju hnýsilegum og fjölbreyttum hópi leikara eins og jafnan er í myndum leikstjórans.
Þó að ekkert ætti svo sem að koma á óvart í þessum efnum, þar sem tökum á nýjustu kvikmynd leikstjórans, The French Dispatch, lauk í síðasta mánuði í Frakklandi, þá er enn að bætast við leikaraliðið, þ.e. að fréttir eru enn að berast af því hverjir léku í myndinni.
Timothée Chalamet, Benicio del Toro, Jeffrey Wright, Bill Murray, Frances McDormand, Tilda Swinton, Léa Seydoux, Mathieu Amalric, Owen Wilson, Lois Smith, Willem Dafoe, Bob Balaban, Henry Winkler, Adrien Brody, Kate Winslet, Jason Schwartzman, Christoph Waltz, Griffin Dunne, Denis Ménochet, Vincent Macaigne, Cécile de France og Rupert Friend eru öll með, en eitt nafn til viðbótar hefur nýlega dúkkað upp. Þar er á ferðinni engin önnur en Elisabeth Moss, sem leikur t.d. í hrollvekjunni Us og í sjónvarpsþáttunum Handmaids Tale.
„Ég lék nýlega lítið hlutverk í Wes Anderson kvikmynd, og ástæðan var 100% vegna þess að ég vildi vera í Wes Anderson kvikmynd. Ég er gríðarlegur aðdáandi,“ sagði Moss við The Hollywood Reporter. „Það er einmitt ástæðan fyrir því að það eru svona ótal margir leikarar í litlum hlutverkum í hans myndum, því það vilja allir vinna með honum. Þannig að þetta er miklu meira spurning um samstarfið, heldur en að þetta sé eitthvað útreiknað skref á ferlinum.“
Anderson tjáði sig nýverið um myndina, sem er hans tíunda, og sagði Charente Libre, að hún fjallaði um bandarískan blaðamann búsettan í Frakklandi, sem gefur út sitt eigið tímarit. „Þetta er meira eins og portrett af þessum manni, af þessum blaðamanni sem berst fyrir því að skrifa um það sem hann vill skrifa um. Þetta er ekki kvikmynd um tjáningarfrelsið, en þegar þú ert að fjalla um blaðamenn, þá ertu ósjálfrátt einnig að fjalla um það sem er að gerast í heiminum.“
Búist er við frumsýningu árið 2020. „Ég held hún gæti orðið klár í lok þessa árs,“ sagði Anderson.