Fyrsta stiklan úr Disney myndinni Cinderella, eða Öskubuska, hefur slegið nýtt áhorfsmet Disney á stiklu á fyrstu 24 tímunum frá því að hún var frumsýnd, að Marvel stiklum undanskildum.
Með aðalhlutverkið, Ellu, eða Öskubusku, fer Downton Abbey leikkonan Lily James og Cate Blanchett leikur vondu stjúpuna. 4,2 milljón áhorf voru skráð á stikluna á YouTube myndbandavefnum á fyrstu 24 tímunum eftir frumsýningu, og 33 milljón áhorf á Facebook, samkvæmt The Hollywood Reporter.
Í myndinni fer Richard Madden með hlutverk prinsins og Helena Bonham Carter er álfadísin.
Myndin er byggð á sögu Charles Perrault og segir frá því þegar líf Ellu breytist skyndilega þegar hún lendir undir náð og miskunn stjúpfjölskyldu sinnar þegar faðir hennar fellur frá.
Þó að illa sé farið með hana á heimilinu, þá er hún ákveðin í að virða hinstu ósk móður sinnar og „vera hugrökk og góð“.
Síðan birtist myndarlegur ókunnugur karlmaður sem hún hittir úti í skógi, sem gæti verið prins ( hann er auðvitað prins ) og ýmislegt spennandi fer að gerast í kjölfarið.
Myndin fylgir í fótspor gríðarlegra vinsælda Disney myndarinnar Maleficent með Angelinu Jolie í aðalhlutverkinu, og Lísu í Undralandi, með Johnny Depp í aðalhlutverki.
Til að setja áhorfið á Öskubuskustikluna í samhengi þá var horft 1,5 milljón sinnum á Maleficent stikluna á fyrsta deginum, en sú mynd þénaði 757,7 milljón Bandaríkjadali í sýningum um allan heim fyrr á þessu ári.
Leikstjóri Cinderella er Kenneth Branagh. Myndin kemur í bíó í mars á næsta ári.