Öskubuskumynd breska leikstjórans Kenneth Branagh er hægt og hægt að taka á sig mynd og nú hefur fyrsta ljósmyndin af Öskubusku sjálfri verið birt. Kvikmyndin er framleidd af Disney kvikmyndafyrirtækinu, og tökur eru hafnar í Englandi.
Á myndinni sést Lily James, sem er þekkt fyrir leik sinn í Downton Abbey sjónvarpsþáttunum og kvikmyndinni Wrath of the Titans, í hlutverki Öskubusku, en eins og flestir ættu að vita er Öskubuska ung stúlka sem missir móður sína, og faðir hennar giftist annarri konu, sem verður stjúpa Öskubusku.
„Með Lily James þá höfum við fundið hina fullkomnu Öskubusku. Hún sameinar einstæða fegurð með gáfum, hnyttni og yndisþokka,“ sagði Branagh í tilkynningu sem gefin var út í tilefni af því að tökur eru hafnar á myndinni.
Aðrir leikarar eru Richard Madden sem leikur prinsinn, Helena Bonham Carter er töfradísin, Cate Blanchett er vonda stjúpan Lady Tremaine og Holliday Grainger og Sophie McShera eru stjúpsysturnar Anastasia og Drisella, sem gera Öskubusku lífið leitt.
Hér að neðan er myndin. Smelltu til að sjá hana í fullri stærð:
Um prinsinn segir Branagh í tilkynningunni frá Disney: „Prinsinn hennar er leikinn af Richard Madden, ungum leikara með ótrúlega orku og útgeislun. Hann er fyndinn, klár, kynþokkafullur og passar fullkomlega fyrir Öskubusku.“
Handrit skrifaði Chris Weitz ( About a Boy ), en myndin er nú í tökum í Pinewood Studios í London og á ýmsum stöðum öðrum á Englandi.
Frumsýning verður 13. mars, 2015.