Óskarinn: Hvernig er kosið? Hver kýs?

side_oscarHefurðu einhverntímann velt fyrir þér hver ákveður hver fær tilnefningu til Óskarsverðlauna og hvernig kosningin um verðlaunahafa fer fram.

Hér eru smá upplýsingar:

Hverjir kjósa: 

Kosningarétt hafa 6.200 meðlimir Óskarsakademíunnar ( kjósendur ), en 93% þeirra eru hvítir og 76% eru karlmenn. Meðalaldur er 63 ár.

Samkvæmt frétt LA Times frá árinu 2012, þá hafði um helmingur þessa fólks komið fram í bíómyndum tvö árin þar á undan, en nokkur hundruð þeirra höfðu ekki unnið að kvikmyndum í áratugi.

„Sumt fólk sem er löngu farið úr bransanum heldur áfram að kjósa, þar á meðal nunna, bókabúðareigandi og aðili sem sá eitt sinn um að fá fólk í friðargæslustörf,“ sagði í greininni.

Stefnt er að því að tvöfalda fjölda kvenna og fulltrúa minnihlutahópa meðal kjósenda fyrir árið 2020, í kjölfar mikillar gagnrýni sem einsleitni kjósendahópsins hefur fengið á sig.

Hvernig verður maður kjósandi:

Til að komast í hóp kjósenda þurfa tveir núverandi kjósendur að mæla með manni, en maður þarf að hafa sýnt fram á „einstakt framlag til kvikmyndanna“ til að eiga möguleika.

Óskarstilnefning er líkleg til að fleyta manni langt.

En þar með er björninn ekki unninn því síðan þurfa nefndir innan kvikmyndaiðnaðarins að velja á milli mögulegra kjósenda, og mæla svo með þeim við yfirstjórn akademíunnar.

Síðar á þessu ári verður reglum breytt þannig að menn mega aðeins vera virkir kjósendur í 10 ár, og fá aðeins að kjósa áfram ef þeir hafa verið virkir í kvikmyndum á þeim tíma.

Tilnefningar:

Í flestum flokkum þá sér fólk úr viðkomandi bransa um að tilnefna, þannig að leikarar tilnefna leikara, klipparar klippara osfrv.

Nokkrir flokkar, eins og besta erlenda mynd og besta teiknimynd, hafa eigin kosninganefndir.

Allir kjósendur geta kosið um bestu mynd.

Valið úr tilnefningum:

Þann 12. febrúar setti Óskarsakademían  í gang vefsíðu sem gaf kjósendum tækifæri til að kjósa á netinu um vinningshafa, en kosningaseðlar voru einnig sendir í bréfpósti.

Kjósa varð fyrir kl. 17 þann 23. febrúar .

Fólk er beðið um að raða myndunum átta sem tilnefndar eru sem besta mynd, í röð eftir gæðum.

Í hinum 23 flokkunum er valið með með einfaldari hætti.

PricewaterhouseCoopers hefur séð um að telja atkvæðin sl. 82 ár, og sá ferill tekur nokkra daga og er framkvæmdur undir miklu öryggiseftirliti.

Vinningshafar tilkynntir:

Tveir fulltrúar PwC hafa hvor sína skjalatöskuna með vinningsumslögunum, og þeir fara í sitthvoru lagi til verðlaunaathafnarinnar, í lögreglufylgd.

Umslögin með sigurvegurunum eru handgerð, og það tekur 110 klukkustundir að útbúa þau.

Vinningshafar fá eintak af umslaginu til eignar og spjald með nafni sínu á.

Óskarsverðlaunin verða afhent nú á sunnudaginn, 28. febrúar.

Heimild. Sky.