Örvarpið hefur hafið sitt annað tímabil í samstarfi við RÚV, en um er að ræða vettvang fyrir upprennandi, skapandi og framsækið fólk í kvikmyndalist. Í byrjun september mun Örvarpið opna fyrir umsóknir á netinu og er fólk hvatt til þess að senda inn myndefni. Sérstök valnefnd mun velja vikulega eitt verk til sýningar á vefnum. Valin verk verða í kjölfarið til sýningar á örmyndahátíðinni Örvarpið.
Myndin Kjöt eftir Heimi Gest Valdimarsson var valin örmynd ársins 2013 í samkeppni um Örvarpann, verðlaun fyrir örmynd ársins. Úrslitin voru kynnt á hátíð í Bíó paradís í mars 2014. Einar Baldvin Arason hlaut áhorfendaverðlaun fyrir örmyndina Echos – Who Knew. Þá var myndin Breathe eftir Erlend Sveinsson kynnt sem sérstakt val dómnefndar.
Veitt voru vegleg verðlaun í boði Canon og Nýherja, Canon EOS 100D fyrir Örvarpann – örmynd ársins, og Canon LEGRIA mini X fyrir áhorfendaverðlaun.