Ólíkindatólið Phoenix kemur til Toronto á morgun

Kvikmyndaleikarinn og ólíkindatólið Joaquin Phoenix verður í sviðsljósinu á morgun á kvikmyndahátíðinni í Toronto, en þá verður frumsýnd heimildamyndin I´m Still Here, sem fjallar um það þegar Phoenix gaf út þá tilkynningu að hann væri hættur kvikmyndaleik og ætlaði að snúa sér að hip-hop tónlistarferli. Í kjölfarið gerðist hann skrýtinn í háttum, safnaði miklu alskeggi og olli fólki miklum heilabrotum.

Þrátt fyrir allt þetta þá hefur Hollywood ekki gefist upp á kappanum, og hann að því er virðist, ekki gefist upp á Hollywood, enda hefur hann verið að skoða hin og þessi kvikmyndahlutverk, þó hann sé ekki búinn að skrifa upp á neitt fast ennþá. Til dæmis var hann í viðræðum um að taka að sér hlutverk í The Raven ásamt Jeremy Renner úr The Hurt Locker, en The Raven mun eiga að fjalla um rithöfundinn Edgar Allan Poe og var Phoenix í viðræðum um að leika Poe sjálfan. Ekkert varð úr þessu þegar Renner réð sig í Mission Impossible 4 og hlutverk Poe fór til John Cusack.

The Raven var það næsta sem hægt er að segja að Phoenix hafi komist því að landa kvikmyndahlutverki upp á síðkastið, en hann hefur einnig skoðað hlutverk eins og í myndinni Genius með Sean Penn, en sú mynd á að fjalla um sambandið á milli bókmenntaritstjórans Max Perkins og ungs rithöfundar, Thomas Wolfe. Phoenix var að pæla í hlutverki Wolfe.

Þá skoðaði leikarinn hlutverk í myndinni The Sitter, gamanmynd eftir Jonah Hill um háskólanema sem er plataður til að passa þrjú börn nágrannans.

Allskonar gróusögur hafa farið á kreik um myndina og komu Phoenix til Toronto, en ein slík segir að hann ætli að senda tvífara sinn á svæðið.

Casey Affleck er leikstjóri I´M Still Here