Oldboy brotlendir

oldboyÞað blæs ekki byrlega í miðasölunni í Bandaríkjunum fyrir endurgerð bandaríska leikstjórans Spike Lee á mynd Suður kóreumannsins Chan-wook Park, Oldboy. Margir aðdáendur fyrri myndarinnar, höfðu beðið þessarar myndir með eftirvæntingu, en upp á síðkastið hefur hún hlotið mikið neikvætt umtal. Nú er útlit fyrir að myndin brotlendi í miðasölunni þessa frumsýningarhelgi sína, en myndin var frumsýnd á 583 bíótjöldum núna á fimmtudaginn.

Útlit er fyrir að tekjur af myndinni muni einungis nema um tveimur milljónum Bandaríkjadala, sem er hræðileg niðurstaða fyrir aðstandendur myndarinnar, og gæti þýtt að myndin yrði eitt mesta flopp ársins.

Eins og segir í frétt Variety vefmiðilsins þá eru meðaltekjur á hvert bíótjald núna um 3.000 dalir, sem er eitt versta meðaltal síðan The Fifth Estate og R.I.P.D. voru frumsýndar.

Myndin fær einungis 43% á Rotten Tomatoes síðunni, og gagnrýnendur hafa verið neikvæðir.

Auk þess sagði aðalleikarinn Josh Brolin í viðtali við dagblaðið L.A. Times nokkur orð sem voru ekki til þess fallin að auka áhuga á myndinni: „Ég hef skoðanir, en það er betra að ég haldi kjafti.“

Sagt er að Lee hafi klippt klukkutíma af myndinni til að þóknast framleiðendum, sem var hvorki leikstjóranum né Brolin að skapi.

Lee fjarlægði  meira að segja hið þekkta vígorð sitt: „Spike Lee Joint“ úr myndinni og notar í staðinn „Spike Lee Film“, sem er einnig talið merki um óánægju leikstjórans með myndina.

Myndin kostaði 30 milljónir dala, og því er útlit fyrir mikið tap.

Síðasta mynd Spike Lee sem hlaut góða aðsókn var Inside Man frá 2006.