Miðað við það sem sjá má í stiklunni þá líta sjónvarpsþættirnir væntanlegu Reykjavík Fusion hrikalega vel út. Þar sameina krafta sína þau Hera Hilmar og Ólafur Darri í aðalhlutverkunum.

Þættirnir, sem eru sex talsins, verða frumsýndir á Sjónvarpi Símans Premium 25. september nk.
Serían fjallar um frá matreiðslumeistara sem Ólafur Darri leikur sem er að reyna að snúa við blaðinu og vinna til baka traust fjölskyldunnar eftir fangelsisvist. Þegar allar dyr virðast lokaðar endar hann á að þiggja vafasama peninga frá gömlum félaga úr fangelsinu til að stofna lúxusveitingastað gegn því að þvætta þá í gegnum reksturinn. Þetta setur bæði skilorðið hans og seinna meir líf hans og fjölskyldunnar í hættu.

Hera Hilmar leikur rekstrarstjóra veitingastaðarins sem nýtir sér einfeldni matreiðslumeistarans til að vinna að eigin hagsmunum. Saman sökkva þau dýpra og dýpra í vef glæpa í undirheimum Reykjavíkur þar sem hvert rangt spor getur reynst dýrkeypt.
Þetta er fyrsta sjónvarpsþáttaserían frá framleiðslufyrirtækinu Act4.
Frábær leikarahópur
Eins og Vísir.is greindi frá þá er Hörður Rúnarsson hugmyndafræðingurinn að baki þáttunum. Hann skrifar handrit seríunnar ásamt Birki Blæ Ingólfssyni. Auk Heru og Ólafs kemur stór hópur frábærra leikara við sögu í Reykjavík Fusion eins og Þröstur Leó Gunnarsson, Unnur Birna Backman, Guðjón Davíð Karlsson, Atli Óskar Fjalarsson og Þorsteinn Gunnarsson.
Eins og sagði í frétt mbl.is á sínum tíma hefur Reykjavík Fusion þegar selst vel erlendis.
Fransk-þýska menningarstöðin ARTE kemur að framleiðslu þáttanna og mun sýna þá á frönskum og þýskum málsvæðum. Sjónvarpsstöðin YLE í Finnlandi, AMC Iberia á Spáni/Portúgal og ERR, ríkismiðillinn í Eistlandi, hafa þegar keypt þáttaröðina sem hefur verið lýst sem „Breaking Bad meets The Bear“.
Leikstjórar eru Samúel Bjarki Pétursson og Gunnar Páll Ólafsson og Skot Productions eru meðframleiðendur.
Michelin kokkurinn Þráinn Vigfússon var ráðgjafi við gerð þáttanna.
Tónlist er eftir Veigar Margeirsson.






