Okkar eigin Osló til Þýskalands

Eftirfarandi er fréttatilkynning:

Íslenska gamanmyndin Okkar eigin Osló hefur verið valin opnunarmynd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Mannheim-Heidelberg, Þýskalandi, sem haldin er frá 10.-20.nóvember n.k. Kvikmyndin var einnig valin í aðalkeppni hátíðarinnar ásamt 19 öðrum úr hópi sjöhundruð innsendra verka. Kvikmyndahátíðin í Mannheim sem nú er haldin í sextugasta sinn leggur áherslu á kvikmyndir með skýrum höfundareinkennum leikstjóra, svokallaðar “author” myndir.

Meðal þeirra leikstjóra sem sýnt hafa sínar fyrstu myndir á hátíðinni eru Jim Jarmusch (1980), Thomas Vinterberg (1997), Bryan Singer (1993), Atom Egoyan (1984), François Truffaut (1959), Rainer Werner Fassbinder (1969), Wim Wenders (1969), Krzyszof Kieslowski (1975), Lars von Trier (1984), Matias Bize (2003) og Ramin Bahrani (2005).

Okkar eigin Osló var frumsýnd á Íslandi í mars síðastliðnum og fékk frábærar viðtökur og góða aðsókn.Reynir Lyngdal leikstýrir hér sinni fyrstu kvikmyndinni eftir handriti Þorsteins Guðmundssonar sem leikur annað aðalhlutverkið ásamt Brynhildi Guðjónsdóttur. Með önnur helstu hlutverk fara Laddi, Hilmir Snær Guðnason, María Heba Þorkelsdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Valgeir H. Skagfjörð og í gestahlutverkum eru grínistarnir Steindi Jr. og Ari Eldjárn.

Reynir Lyngdal og framleiðendur kvikmyndarinnar, Hrönn Kristinsdóttir og Anna María Karlsdóttir, verða viðstödd opnunarsýninguna í Mannheim föstudaginn 11.nóvember.