Okkar eigin Osló frumsýnd á föstudag

Ný íslensk kvikmynd, Okkar eigin Osló, verður frumsýnd á föstudaginn í kvikmyndahúsum um land allt.

Í fréttatilkynningu aðstandenda segir að í myndinni taki landslið grínara, úrvalsleikara og kvikmyndagerðarmanna saman höndum í frábærri nýrri gamanmynd Reynis Lyngdal eftir handriti Þorsteins Guðmundssonar fóstbróðurs með meiru.

Aðalhlutverk í myndinni eru í höndum þeirra Þorsteins Guðmundssonar, Brynhildar Guðjónsdóttur, Ladda, Maríu Hebu Þorkelsdóttur, Hilmis Snæs Guðnasonar, Lilju Guðrúnar Þorvaldsdóttur, Valgeirs H. Skagfjörð, auk grínistanna Ara Eldjárns og Steinda jr.

Í myndinni fylgjumst við með tveimur gerólíkum manneskjum gera tilraun til þess að stofna til náinna kynna; Haraldi (Þorsteinn Guðmundsson) verkfræðingi hjá Marel og Vilborgu (Brynhildur Guðjónsdóttir), bankastarfsmanni og einstæðri móður . Haraldur og Vilborg eru fólk sem við þekkjum öll. Þau hafa sína yndislegu kosti og hræðilegu galla. Þau taka misgáfulegar ákvarðanir, eru oft á tíðum óheppin og klaufaleg í samskiptum en einnig leidd áfram af þrá sem við þekkjum öll eftir betra lífi, félagsskap, ást og hamingju.

Framleiðendur myndarinnar eru þær Hrönn Kristinsdóttir og Anna María Karlsdóttir fyrir Ljósband efh.

Kvikmyndin er styrkt af Kvikmyndasjóði Íslands og er íslensk, norsk og bresk samframleiðsla.
Leikstjóri er Reynir Lyngdal, handrit skrifar Þorsteinn Guðmundsson, tónlist er eftir Helga Svavar Helgason, klipping var í höndum Stefaníu Thors, kvikmyndatöku annaðist Víðir Sigurðsson, hljóðhönnun er eftir Kjartan Kjartansson og Huldar Freyr Arnarson, leikmynd er eftir Eggert Ketilsson, búninga hannaði Margrét Einarsdóttir og förðun sá Kristín Kristjánsdóttir um.

Upptökur myndarinnarfóru fram s.l. sumar í Osló, Reykjavik og á Þingvöllum.

Smellið á íslenska heimasíðu myndarinnar hér að neðan en þar má sjá ýmislegt hnýsilegt, svo sem sýnishorn úr myndinni, upplýsingar um sýningartíma og kaup á miðum á myndina ofl.

Heimasíða myndarinnar