Okkar eigin Osló er aftur orðin vinsælasta mynd landsins. Tæplega 2.700 manns sáu þessa nýju íslensku gamanmynd um helgina og hafa nú tæplega 15.000 manns séð hana eftir 17 daga í sýningu (með forsýningu), að því er fram kemur í frétttatilkynningu frá Senu. Í tilkynningunni kemur fram að þetta sé „frábær árangur á íslenskri mynd“ og betri árangur en nýlegar íslenskar myndir eins og Rokland, Gauragangur, Brim og Órói hafa náð eftir jafn marga daga.
Í tilkynningunni segir að mjög sjaldgæft sé að myndir fari aftur í toppsætið á tekjulista SMÁÍS eftir að hafa verið þar áður.
Myndin hefur verið að fá góð viðbrögð víðast hvar og fær til dæmis 4 stjörnur hjá Morgunblaðinu, 3 stjörnur í Fréttablaðinu, 4 stjörnur í Fréttatímanum, og Dr. Gunni gefur myndinni 4 stjörnur. Þá gefur Tómas Valgeirsson aðalgagnrýnandi kvikmyndir.is myndinni einnig 4 stjörnur, en sá munur er þar á að það eru 4 stjörnur af 10 mögulegum, sem segir aðeins eitt; að Tómasi hafi ekki líkað myndin, en þið getið lesið gagnrýni hans hérna. Á sama stað má einnig lesa 9 stjörnu dóm frá einum notanda kvikmyndir.is, Önnu Sóleyju Viðarsdóttur.