Sjónvarpsþættirnir The Strain, sem leikstjórinn og framleiðandinn Guillermo del Toro og Carlton Cuse framleiða, verður frumsýnd þann 13. júlí í Bandaríkjunum á sjónvarpstöðinni FX. Fyrsta stiklan úr þáttunum var sýnd nýverið og eins og við má búast frá del Toro þá eru þættirnir greinilega ógnvekjandi og um leið spennandi í senn.
Handritið að þáttunum skrifar del Toro sjálfur ásamt Chuck Hogan, en það er byggt á þremur vampírubókum þeirra sem fjalla um Dr. Ephraim Goodweather, sem leikinn verður af Corey Stoll, sem er yfirmaður miðstöðvar sjúkdómavarna í New York borg í Bandaríkjunum. Goodweather og starfslið hans er kallað til að rannsaka dularfullan vírus sem ber merki um aldagamlan og illan vampírisma.
Leikarinn David Bradley, sem margir þekkja úr Harry Potter-myndunum, mun leika prófessor Abraham Setrakian, eftirlifanda úr helför nasista sem flutti til Bandaríkjanna eftir seinni heimsstyrjöldina og rekur núna veðlánabúð í spænska Harlem í New York. Eftir því sem vampírufaraldurinn breiðist út þá gæti hann verið sá eini með réttu svörin.
Hér að neðan má sjá fyrstu stikluna úr þáttunum.