Og þriðja Austin Powers myndin heitir?

Það er kominn undirtitill á þriðju Austin Powers myndina og mun hún heita fullu nafni, Austin Powers 3: Goldmember. Það á að koma myndinni eins hratt á markaðinn og hægt er, og því hefur útgáfudagurinn 26. júlí árið 2002 verið ákveðinn. Það þýðir að myndin sem leikstjórinn Jay Roach ætlaði sér að gera í millitíðinni, framhaldið af geysivinsælli mynd hans Meet the Parents en hún átti að heita Meet the Fockers, hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Þeir sem hafa boðað komu sína í þessa Austin Powers mynd eru eftirtaldir: Elizabeth Hurley , Heather Graham og Mike Myers í fjórum hlutverkum sem Dr. Evil, Austin Powers, Fat Bastard og illmenni myndarinnar, Goldmember. Einnig er ljóst að það þarf að finna nýja stúlku til þess að leika aðalgellu myndarinnar en það hefur enn ekki verið gert. Ekki hefur heldur verið gefin út yfirlýsing þess efnis að Sean Connery muni leika föður Austin í myndinni, en þrálátur orðrómur þess efnis hefur gengið manna á milli í Hollywood undanfarna mánuði.