Tvær jólamyndir sem margir hafa beðið spenntir eftir verða forsýndar nú um helgina í bíóhúsum. Annarsvegar er það DC Comics ofurhetjumyndin Aquaman, sem forsýnd verður í Sambíóunum Kringlunni og Akureyri, og hinsvegar er það teiknimyndin Spider-Man: Into the Spider-Verse með íslensku tali. Hún verður forsýnd í Sambíóunum Álfabakka laugardaginn 15. desember kl. 16:30 og einnig verður hún forsýnd í Smárabíói bæði laugardag og sunnudag.
Aquaman segir frá því þegar Arthur Curry kemst að því að hann er erfingi neðansjávarríkisins Atlantis, og þarf að stíga fram og stöðva hálfbróður sinn Orm sem vill sameina hin sjö konungsríki hafsins og segja mannkyninu stríð á hendur. Með aðalhlutverk í myndinni fara Jason Momoa, Amber Heard, Patrick Wilson, Dolph Lundgren, Willem Dafoe og Nicole Kidman.
Spider-Man: Into the Spider-Verse er hliðarævintýri frá hinum venjulegu Spider-Man-myndum. Miles Morales er hinn eini sanni kóngulóarmaður. Eða það heldur hann…
Miles kynnist framandi Spider-Man víddum þar sem köngulóarmenn, köngulóarkonur og köngulóardýr hafast við og eru öll gædd einhverskonar ofurhæfileikunum. Þeirra á meðal er Peter Parker sem tekur Miles í kennslustund í sveiflutækninni áður en hann hittir allar hinar köngulóarútgáfunar, þar á meðal Gwen Stacy, svarta köngulóarmanninn og Spider-Ham. Úr þessu öllu verður heljarinnar ævintýri þar sem hersingin þarf að takast á við glæpakónginn þykka, Wilson Fisk, sem síðast lét á sér kræla í nýjasta Spider-Man-tölvuleiknum.
Aquaman verður frumsýnd 19. desember en Spider-Man: Into the Spider-Verse á Jóladag, 26. desember.
Kíktu á stiklur úr myndunum hér fyrir neðan: