Rithöfundurinn Stephen King var í viðtali hjá LA Times á dögunum, þar sem hann sagðist hafa verið öfundsjúkur út í höfund Game of Thrones, George R.R. Martin.
„Ég varð öfundsjúkur þegar ég frétti að George R.R. Martin hafði skrifað nokkra þætti fyrir Game of Thrones,“ sagði King og bætti við að það hafi ýtt honum út í að vilja verða hluti af handritsteymi sjónvarpsþáttanna Under the Dome, sem eru byggðir á bók hans.
„Það er ákveðin ábyrgð að skrifa þætti sem eru byggðir á verki þínu. Ég segi alltaf við fólk að ef það heppnast þá monta ég mig af því að það sé byggt á mínu verki, en ef það heppnast ekki þá get ég alltaf sagt að ég hafi ekki komið nálægt því.“
King getur aftur á móti ekki afsakað sig í þetta skipti því hann er hann með puttanna í sjónvarpsþáttunum, sem hafa fengið misjafna gagnrýni, en King er hæstánægður með útkomuna það sem af er.
Sagan var fyrst skrifuð árið 1972, þegar King var óþekktur framhaldsskólakennari, en bókin var ekki gefin út fyrr en 37 árum síðar, þegar King var orðinn heimsfrægur rithöfundur. Sagan segir frá litlum bæ sem er aðskilinn frá heiminum vegna dularfulls hvolfþaks sem ekki er hægt að komast í gegnum.
Af öðrum þekktum kvikmyndagerðum og sjónvarpsþáttum af sögum Stephen King má nefna Misery, Dead Zone, Shawshank Redemption og The Shining.