Viðræður eru nú á lokametrunum við bandaríska Zoolander 2 leikarann Ben Stiller, um að hann taki að sér aðalhlutverkið í gamanmyndinni Brad´s Status.
Myndin er eftir leikstjórann Mike White, og fjallar um Brad, sem þrátt fyrir velgengni í lífi og starfi, er heltekinn af öfund yfir enn meiri velgengni gamals skólafélaga síns. Hjómar eins og ekta Ben Stiller mynd!
Þegar hann fer að hjálpa syni sínum að velja sér framhaldsnám, þá neyðist Brad til að horfast í augu við vini sína og þá tilfinningu að hann hafi ekki náð nógu langt í lífinu.
„Tilfinning Mike White fyrir gríni, kemur sterk inn í þessari ótrúlega fyndnu, en stundum grátbroslegu, sögu, um fjölskyldu, vini og þá óvæntu hluti sem við þurfum að mæta í lífinu,“ segja þau John Penotti og Carla Hacken hjá framleiðslufyrirtækinu Sidney Kimmel Entertainment, í tilkynningu.
„Ben Stiller hefur þennan sjaldgæfa hæfileika að geta bæði verið í grínhlutverki og sýnt tilfinningadýpt á sama tíma.“
Tökur á Brad´s Status hefjast nú í september nk.