Kvikmyndaleikarinn Shia LaBeouf segir, í nýju samtali við Variety kvikmyndaritið, að honum líki ekki við neina mynd sem hann hefur unnið með kvikmyndagerðarmanninum Steven Spielberg, að einni undanskilinni: fyrstu Transformers myndinni.
LaBeouf, sem lék aðalhlutverk undir stjórn Spielberg í Indiana Jones myndinni, Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull, og einnig í Transformers, þar sem Spielberg var framleiðandi, segir: „Ég er ekki hrifinn af myndunum sem ég gerði með Spielberg.“
„Eina kvikmyndin sem ég var hrifinn af, sem við gerðum saman, var fyrsta Transformers myndin,“ bætti hann við.
Hann segir að það hafi verið takmark sitt sem ungs leikara að ná að vinna með Spielberg, en það hafi ekki verið eins stórkostlegt og hann bjóst við.
„Ég ólst upp með þessa hugmynd, að ef maður næði að vinna með Spielberg, þá væri maður hólpinn. Ég er ekki að tala um frægð, og heldur ekki peninga. Þú kemst á þennan stað, og áttar þig á að þetta er ekki Spielbeg drauma þinna. Þú hittir annan Spielberg, sem er á öðrum stað á ferli sínum. Hann er minni leikstjóri, og meira helv. … fyrirtæki.“
Í viðtalinu ræðir hann einnig um Indiana Jones and the Kingdom of the Crystal Skull og þá gagnrýni sem hann fékk þar sem honum var „kennt um“ myndina, og að það hafi sært hann.
Steven Spielberg framleiddi einnig Disturbia og Eagle Eye, en Shia LaBeouf lék aðalhlutverk í báðum þeim myndum.