Nýtt myndband úr Game of Thrones

Þessi síða heitir kvikmyndir.is, og það er það sem hún fjallar fyrst og fremst um. Ekki er lögð mikil áhersla á fréttir af „fræga fólkinu“ eða sjónvarpsefni. Þessi frétt verður þá undantekning – en Game of Thrones eru heldur ekkert venjulegir sjónvarpsþættir. HBO framleiðir þessa mjög svo fullorðins fantasíuþætti og byggja á frábærum bókaflokki George R.R. Martin, A Song of Ice and Fire. Fyrsta sería rann sitt skeið á fyrri hluta ársins, og hér á Íslandi í haust, og samanstóð hún af tíu klukkustundarlöngum þáttum, byggðum á fyrstu bók Martins. Svo virtist sem hvert einasta heilbrigða mannsbarn væri að fylgjast með og langflestir heilluðust af. Ef þú ert ein/n af þeim fáu sem einhverra hluta vegna horfðu ekki á þættina – drífðu þig. Næsta sería er í fullri vinnslu núna, og meðal munu tökur fara fram hér á landi í tíu daga í desember. Aðdáendur hafa beðið óþreyjufullir, og sýningardagsetningin í apríl virðist ótrúlega langt í burtu. En nú höfum við fengið smá myndband sm sýnir okkur bæði á bakvið tjöldin og nokkur atriði úr þessum heillandi heimi. Þarna má sjá glitta í nýja karaktera, eins og Stannis Baratheon, sem endalaust var verið að tala um í síðustu seríu. Hér er myndbandið:

Þetta ætti að auðvelda biðina – eða hvað gerir þetta hana verri? Allavega þá dreif ég mig í því að lesa fyrstu bókina eftir áhorf þáttanna og þeir sem ekki geta beðið hafa náttúrulega alltaf þann möguleika að snúa sér að bókunum. Ég get allavega mælt með þeirri fyrstu. Ansi vel skrifuð. Ekki nærri því eins mörg kynlífsatriði og eru í þáttunum samt. Ég hugsa að ég taki bók tvö í jólafríinu – þá get ég verið gæinn sem veit alltaf hvað er að fara að gerast næst. Annars er ég maður sem hef mjög litla þolinmæði fyrir sjónvarpsefni – horfi nánast ekkert á sjónvarpsþætti, en þetta er undantekningin sem sannar regluna. Er fólk sammála mér að Game of Thrones sé hápunktur sjónvarpsgerðar áratugarins – eða eru einhverjir þættir sem ég er að missa af?