Bíósumarið 2012 er komið langt á leið og nördaráðstefnan Comic-Con er búin að vera í fullum gangi síðustu daga til að gíra fjöldann aðeins upp fyrir það sem koma skal á næstunni. Miðað við það að leðurblakan fer fljótlega að kveðja okkur er stórfínt að kynna næsta þursinn úr DC-heiminum og vona að hann sé prýðilegur arftaki.
Batman-unnendum til mikillar ánægju er Christopher Nolan einn af framleiðendum Superman-myndarinnar Man of Steel, sem leikstýrð er af Zack Snyder. Búið er að moka út alls kyns fréttum og tilkynningum frá Comic-Con en margir sem hafa verið viðstaddir eru sammála um að Superman-kynningin hafi verið á meðal þeirra bestu.
Samkvæmt orðrómum er séns að fyrsta stiklan fylgi með The Dark Knight Rises þegar hún verður frumsýnd. Í bili ætti þetta plakat að duga ágætlega til að selja manni áhugann á myndinni.
Hvernig ætli Superman-bölvunin alræmda komi síðan að Henry Cavill?
Þið vitið…
George Reeves lést löngu fyrir aldur á dularfullan hátt, Christopher Reeve lamaðist og ferillinn hjá Brandon Routh hefur haltrað allsvakalega síðan hann byrjaði.
Man of Steel flýgur í bíó í júní á næsta ári. Reiknað er með stærri, flottari, grimmari og epískari Superman-mynd en hefur nokkurn tímann sést áður og lofar Snyder því að nýja tónlistin eftir Hans Zimmer sé ekkert síðri en þessi goðsagnarkennda sem John Williams samdi.