Nýja Sacha Baron Cohen grínmyndin, The Brothers Grimsby, verður frumsýnd á föstudaginn næsta.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Baron Cohen leikur G. Nobby, indæla en illa gefna fótboltabullu á Englandi. Hann hefur allt sem maður frá Grimsby gæti mögulega óskað sér, þar með talin 11 börn og fallegustu kærustuna á norðaustanverðu Englandi (Rebel Wilson).
Hann hittir aftur bróður sinn, Sebastian (Mark Strong) eftir langan aðskilnað. Sebastian er eitilharður M16 fulltrúi og saman reyna þeir að koma í veg fyrir stórtæka hryðjuverkaárás sem hefði haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar á heimsmælikvarða. Í þessu tilfelli á hið fornkveðna, ber er hver að baki nema bróður eigi, ekki við því að baki hvers stórfenglegs njósnara er vandræðalegt systkini.
Leikstjóri: Louis Leterrier
Aðalhlutverk: Sacha Baron Cohen, Mark Strong, Isla Fisher.
Áhugaverðir punktar til gamans:
– Myndin á að nokkrum hluta til að gerast í Grimsby í Norður-Englandi og hafa sumir íbúar þar lýst áhyggjum sínum af því hvernig borginni, íbúum hennar og daglegu lífsmynstri þeirra er lýst í myndinni enda er Sacha Baron Cohen þekktur fyrir að ýkja stórlega ástandið á heimaslóðum persónanna sem hann leikur. Þess ber að geta að sum atriðin sem eiga að gerast í Grimsby voru í raun tekin upp í bænum Tilbury í Essex, en önnur atriði voru að mestu tekin upp í Höfðaborg í Suður-Afríku.