Leikstjórinn Tarsem Singh ( The Cell ) er kominn með nýtt verkefni upp í hendurnar. Hann hætti fyrir skömmu við að leikstýra mynd um enska þrjótinn og galdramanninn Constantine, og er það mál enn í málaferlum. Hann hefur þó ekki setið aðgerðalaus, heldur hefur hann ákveðið að taka að sér að leikstýra kvikmyndinni Nautica. Henni átti upphaflega að vera leikstýrt af Ted Demme ( Blow ), en eins og kunnugt er þá lést hann af eiturlyfjamisnotkun fyrir skömmu. Þar með opnaðist fyrir Tarsem að taka við, sem hann og gerði. Í Nautica áttu þeir félagar Ewan McGregor og Heath Ledger að fara með aðalhlutverk, en þegar Demme dó urðu samningar þeirra ógildir. McGregor hefur aftur hafið samningaviðræður, en hlutverk Ledgers verður að ráða aftur í. Myndin sjálf fjallar um það hvernig morð er framið um borð í skemmtisnekkju einni í karabíska hafinu. Síðan fáum við að sjá atburðinn gerast þrisvar sinnum, í hvert sinn í gegnum augu einnar af þremur aðalpersónum. Sagan breytist í hvert sinn, en hvað var það sem gerðist í rauninni? Tökur ættu að hefjast í haust.

