Columbia kvikmyndaverið hefur krækt sér í nýtt handrit sem skrifað er af þeim Steve Koren og Mark O´Keefe, en það voru einmitt þeir sem skrifuðu handritið að ofursmellinum Bruce Almighty. Vonast er til þess að Adam Sandler muni vilja leika aðalhlutverkið í myndinni, eða að minnsta kosti framleiða í gegnum framleiðslufyrirtæki sitt, Happy Madison. Myndin nefnist Click, og fjallar um vinnualka sem vinnur í auglýsingabransanum. Einn daginn rekst hann á töfrum gædda fjarstýringu, sem gerir honum kleyft að hraðspóla sig í gegnum ákveðna atburði, og hægja á öðrum. Þegar fjarstýringin fer síðan að taka völdin og hraðspóla í gegnum líf hans, gerir hann sér grein fyrir því hvað hann er búinn að vanrækja fjölskyldu sína.

