„Þegar við heyrum af eldgosum og veirum, þá erum við minnt á að við búum á stað sem kallast Jörð, sem er stærri og öflugri en við öll. Stundum eigum við til að gleyma þessu. Við teljum vírusa og fleira slíkt vera eitthvað sem við getum haft stjórn á, en svo er ekki. Jörðin er að segja okkur eitthvað. Náttúran er að segja okkur eitthvað.“
Svo mælir kvikmyndagerðarmaðurinn Baltasar Kormákur, sem líkt og flestir aðrir víða um heim er staddur í sjálfskipaðri sóttkví þessa dagana. Baltasar segir frá því í pistli á vef Vulture hvernig lífið gangi fyrir sig hjá kvikmyndaleikstjóra á Íslandi í miðjum kórónuveirufaraldri. Hann segir að sér þyki ekki ólíklegt að hann greinist með COVID-19, enda á hann stóra fjölskyldu og telur að fleiri hættur leynist innadyra en utanhúss.
„Ég á fjögur börn og þau eru öll með kærasta eða kærustur, sem eiga líka fjölskyldur. Ég mun líklegast fá (veiruna) á einhverjum tímapunkti. Ég er líkamlega hraustur og ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma en faðir minn er í krabbameinsmeðferð. Hann hefur einangrað sig.“
Hundamyndinni slegið á frest
Næsta kvikmynd á teikniborði leikstjórans er kvikmyndin Arthur the King með Mark Wahlberg. Verkefninu hefur nú verið slegið á frest í ótilgreindan tíma í ljósi faraldursins en á dögunum átti Baltasar að fljúga til Púertó Ríkó til að skoða tökustaði fyrir myndina.
Kvikmyndin segir frá götuhundinum Arthur sem vingast við fyrirliða sænsks liðs sem tók þátt í Adventure Racing World Championship árið 2014 í Amazon-skóginum. Umræddur fyrirliði er Mikael Lindnord, höfundur bókarinnar Arthur: The Dog Who Crossed the Jungle to Find a Home. Myndin er byggð á bókinni og segir hún frá sambandi höfundarins við Arthur, sem Lindlord tók að sér eftir ævintýraför þeirra um Ekvador.
Þeir Baltasar og Wahlberg hafa tvisvar áður unnið saman, fyrst að kvikmyndinni Contraband (2012) og síðar 2 Guns (2013). Tökur á myndinni eru sagðar eiga að fara fram fyrri hluta næsta árs. Ekki er vitað meira um fleiri leikara myndarinnar að svo stöddu en handritshöfundurinn Michael Brandt skrifar handritið að myndinni og á hann að baki bíómyndir á borð við Wanted, 3:10 to Yuma og 2 Fast 2 Furious.
Meiri tími fyrir Tiger King og undirbúning
Baltasar kýs að líta á björtu hliðarnar og segir sniðugt að nýta ástandið til að sinna meiri undirbúningsvinnu fyrir kvikmyndina og fara yfir handritið. „Margir vinna sér í haginn á þessum tíma. Nú er tíminn góður til að raða öllu í hillurnar og kannski líta aðeins inn á við. Það er þýðir ekkert að tuða um þetta,“ segir hann.
Þá upplýsir leikstjórinn að hann hafi varið tímanum í að horfa á kvikmyndir og hefur nýverið horft á kvikmyndirnar The Favorite, Solaris, Come and See og Cold War svo dæmi séu nefnd. Viðurkennir hann einnig að hafa sogast að sjónvarpsþáttunum Tiger King á Netflix.
Þá þurfti einnig að hætta tökum á nýrri þáttaröð sem leikstjórinn er að gera fyrir streymisveituna Netflix og heitir Katla.
„Veiran stjórnar þessu, ekki við,“ segir leikstjórinn. „Við verðum að vinna úr því sem við höfum. Við reynum allt sem við getum til að komast lífs af og gera það sem er rétt, en við getum ómögulega stjórnað þessu. Við þurfum að komast í gegnum þetta og hneygja okkur fyrir veirunni. Þetta er afl. Veiran er klár. Hún finnur leið til að lifa af og tekur ýmsum breytingum. Það er það óhugnanlegasta við þetta allt saman.“